Þessi kaka er dásamlega bragðgóð með tebollanum eða kaldri mjólk! Það er tilvalið að baka hana og eiga inn í ísskáp yfir hátíðirnar eða bara fyrir kaldan vetrardag! Ég tvöfalda þessa uppskrift og set í stórt hringlaga formkökumót.
Uppskrift:
½ bolli mjólk
1 tsk Pumpkin spice frá Kryddhúsinu
110 g smjör við stofuhita
½ bolli hunang
1 msk sítrónubörkur
3 egg
2 tsk vanilla
1 bolli hveiti
¾ bolli möndlumjöl
2 tsk lyftiduft
½ tsk salt
Aðferð:
Hitið mjólkina með Pumpkin spice, upp að suðumarki. Takið af hitanum, breiðið klút yfir pottinn og látið kólna.
Hitið bakaraofninn í 170 gráður.
Hrærið saman smjörið, hunangið og sítrónubörkinn í hrærivél. Bætið þá eggjunum út í, einu í einu og hrærið í á milli. Því næst er vanillunni blandað saman við og þurrefnunum. Öllu blandað vel saman. Að lokum hellið krydduðu mjólkinni út í og blandið allt vel saman.
Hellið deiginu í smurt formkökumót.
Bakið í 45-60 mín. Það er gott að setja álpappír yfir kökuna eftir 20 mín til að hún brúnist ekki um og of. Gott að stinga prjón í kökuna miðja og ef hann kemur hreinn út þá ætti hún að vera fullbökuð.
Ofan á kökuna:
3-4 msk sítrónusafi
2 msk hunang
¾ bolli flórsykur eða meira ef þarf
Blandið saman sítrónusafanum og hunanginu. Stráið eins og helming af blöndunni yfir heita kökuna.
Setjið flórsykurinn saman við restina af blöndunni og hrærið þar til þið fáið þá þykkt sem þið kjósið. Hellið yfir kalda kökuna og skreytið með rifnum appelsínuberki ef vill.