Heimagert brauð og Tómat-pestó. Þetta tvennt kom vinkona okkur með í vinnuna einn daginn og jammý! Það jafnast ekkert á við nýbakað brauð og pestóið var fullkomið álegg! Hérna eru uppskriftirnar:
Brauðið:
750gr hveiti
25gr ferskt ger
500ml volgt vatn
2,5 tsk salt
1 tsk sykur
2 msk olía
Nigella fræ, sesam fræ (og fleiri fræ að eigin vali) til að strá ofan á
Aðferð: Blandið gerinu og sykrinum saman við vatnið og látið bíða í nokkrar mínútur. Bætið þá olíunni saman við og að lokum hveitinu og saltinu. Hrærið allt saman með sleif. Hyljið skálina með plastfilmu og geymið í kæli yfir nótt eða í 8-12 klst. Takið deigið úr kælinum. Hitið ofninn í 220C og setjið eldfast mót með loki inn í ofninn og leyfið því að hitna með. Á meðan, hnoðið deigið og setjið það í heitt mótið. Gott að pensla yfir það volgu vatni og strá fræunum yfir. Lækkið hitann niður í 200C og bakið brauðið í 30 mín í mótinu með lokinu á. Takið þá lokið af og bakið í aðrar 30 mín. Þá er brauðið tilbúið.
Tómat pestó:
150gr sólblómafræ lögð í bleyti í 1 klst.
1 krukka sólþurrkaðir tómatar og helmingurinn af olíunni úr krukkunni
2 litlir laukar eða 1 stærri skorinn smátt
1 tsk hvítlauksduft
1/2 tsk Cajun kryddblanda
salt
Aðferð: svitið laukinn á pönnu. Takið sólblómafræin upp úr vatninu og setjið í matvinnsluvél ásamt lauknum og restinni af innihaldsefnunum og hrærið allt vel saman. Setjið í skál með loki eða krukkur og gott að strá sólblómafræum yfir. Verði ykkur að góðu!