Þessi ískaka er svo falleg, hátíðleg og bragðgóð. Hún er alls ekki flókin að útbúa þótt svo megi virðast við fyrstu sýn. Ég valdi kirsuber þar sem þau fara vel með kardamommum og svo eru þau svo fallega rauð og jólaleg. Það er gott að setja líkjör í kökubotninn en ég ákvað að hafa ískökuna fyrir alla og því notaði ég safann úr kirsuberjunum til að mýkja upp makkarónurnar í botninn og bragðbætti með möndludropum.

Ísinn:

600ml mjólk

1 vanillustöng

4-5 heilar kardamommur

8 eggjarauður

200gr sykur

600ml rjómi

1 bolli frosin kirsuber

2 msk hunang

1/2 bolli möndluflögur passið að geyma svolítið af möndluflögunum til að strá yfir kökuna. (dreifið flögunum á ofnplötu og þurrristið í 180 C heitum ofni í 5-7 mín eða þar til þær eru gullinbrúnar)

Botninn:

250gr makkarónur (passið að geyma eins og 3-4 msk af makkarónunum fyrir skraut á kökuna)

safinn af þiðnu kirsuberjunum

1 msk möndludropar

Aðferð:

Hellið mjólkinni í pott. Skerið vanillustöngina endilanga og skafið innan úr henni. Takið fræin úr heilu kardamommunum og merjið þau í morteli (eða saxið með hníf). Setjið vanilluna (fræin og stöngina) og muldu kardamommuna út í mjólkina. Hitið upp að suðumarki. Takið þá pottinn af hellunni, breiðið viskastykki yfir pottinn og látið standa í 30 mín.

Á meðan þeytið eggjarauður og sykur vel saman þar til létt og ljóst. Hitið mjólkurblönduna aftur upp að suðumarki. Veiðið vanillustöngina upp úr og hellið svo mjólkinni í mjórri bunu út í eggjahræruna. Hrærið allt vel saman.

Þvoið pottinn og hellið eggjahrærunni í pottinn og sjóðið við vægan hita í 7-10 mín eða þar til blandan fer að þykkna. Passið að hræra svo til stöðugt í til að varna því að brenni við. Setjið hræruna í skál og leggjið plastfilmu á yfirborðið og hyljið það þannig að ekki myndist skán. Kælið.

Botninn: Á meðan hræran er að kólna, takið þá frosnu kirsuberin og skerið þau í hæfilega bita. Setjið þau í skál og látið þau þiðna. Þá er 2 msk af hunangi blandað saman við kirsuberin.

Makkarónurnar eru muldar gróft í matvinnsluvél.

Blandið safanum af þiðnu kirsuberjunum og möndludropunum saman við þær og setjið makkarónurnar í kökuform sem búið er að klæða með plastfilmu. Þjappið vel niður í formið. Passið að geyma eins og 3-4 msk af makkarónunum til að skreyta kökuna að lokum. Gott að geyma botninn í frysti á meðan ísinn er lagaður.

Áfram með ísinn: Þeytið rjómann og blandið honum saman við köldu eggjahræruna með sleif. Ef ísinn á að fara í ísvél þá er gott að blanda kirsuberjunum og ristuðu möndluflögunum út í í lokin eða þegar ísinn er að verða tilbúinn.

Hellið ísnum yfir makkarónubotninn og stráið restinni af makkarónunum og möndluflögunum yfir ískökuna. Gott að setja plastfilmu yfir áður en kakan fer í frystinn.

Ef ekki er notast við ísvél er gott að taka ísinn út á klst fresti og hræra í honum til að gera hann loftkenndari og koma í veg fyrir að ískristallar myndist. Gera þetta í eins og þrjú skipti. Í síðasta skiptið má strá restinni af makkarónunum og möndluflögunum yfir kökuna til skrauts.

Athugið að láta kökuna þiðna í u.þ.b. 15 mín áður en hún er borin fram.

Skafið innan úr vanillustönginni með hníf.

Rífið kardamommurnar upp og takið fræin úr.

Kardamommufræin mulin eða söxuð með hníf.

Vanillan og kardamommufræin hituð í mjólkinni.

Egg og sykur þeytt þar til….

…létt og ljóst.

Hitið mjólkina aftur upp að suðumarki og hellið henni í mjórri bunu út í eggjahræruna.

Þá er hrærunni hellt í skál og hún hituð yfir vatnsbaði.

Hrærið svo til stöðugt í og passið vel að hræran hitni ekki um og of þannig að hún hlaupi.

Gott að leggja plastfilmu yfir yfirborðið svo að ekki myndist skán. Hræran látin kólna inn í ísskáp.

Botninn:

Makkarónurnar muldnar gróft í matvinnsluvél.

Frosin kirsuber…

…hella hunangi yfir…

Þegar kirsuberin eru þiðin er gott að kreista aðeins safanum úr þeim yfir makkarónurnar…

…og bragðbæta með möndludropum.

Botninn settur í frysti á meðan ísinn er útbúinn.

Dreifið möndluflögunum á ofnplötu og þurrristið í 180 C heitum ofni í 5-7 mín eða þar til þær eru gullinbrúnar. Leggjið til hliðar.

Blandið kaldri eggjahrærunni saman við þeyttan rjómann.

Ef ekki er notast við ísvél er ísinn tilbúinn á þessu stigi fyrir frystinn. Hér á eftir að setja kirsuberin og möndluflögurnar saman við áður en ísnum er svo hellt yfir botninn. Gott að hræra í á u.þ.b. klst fresti í ísnum fyrstu 3 klst eða eins og 3-4 sinnum til að koma í veg fyrir að ískristallar myndist. Fallegt að skreyta ískökuna að lokum með restinni af möndluflögunum og makkarónunum eftir að hafa hrært í ísnum í síðasta skiptið.

Svona lítur ísinn út eftir að hafa farið í ísvél. Ég set kirsuberin og möndluflögurnar út í ísvélina í lokin eða rétt áður en ísinn er tilbúinn í vélinni.

Helli ð ísnum yfir botninn og stráið kirsuberjamakkarónum og möndluflögum yfir of frystið. Gott að setja plastfilmu yfir ískökuna og frysta hana þannig til að ekki myndist ískristallar.

Heit Kirsuberjasósa:

3 bollar frosin kirsuber, skorin smátt

¾ bollar sykur

salt á hnífsoddi

½ tsk vanilla

Allt sett í pott og soðið saman. Merjið kirsuberin í pottinum og sjóðið niður. Það tekur u.þ.b. 10 mín eftir að suðan er komin upp. Fyrir fallegri áferð er sósan maukuð í blandara. Sósuna má bera fram heita eða kalda.

add_action( 'woocommerce_after_shop_loop_item', 'woocommerce_template_loop_add_to_cart', 20 );