Hjónin Ólöf Einarsdóttir og Omry Avraham, eigendur Kryddhússins, hafa unun af því að búa til góðan mat. Þeirra matreiðsla er oftar en ekki undir áhrifum frá Mið-Austurlöndum þar sem Avraham er frá Ísrael. Hér ætla þau að deila sinni páskamáltíð með lesendum Morgunblaðsins.
„Mér finnst gaman að halda í hefðir þegar kemur að mat og þess vegna er lambalæri ómissandi yfir páskana,“ segir Ólöf en hún og eiginmaður hennar, Avraham, settu saman sína draumapáskamáltíð. Það er ekki annað en hægt að fá vatn í munninn við að lesa þessar uppskriftir en yfir þeim er nokkur ævintýraljómi.„Þar sem Avraham er mjög liðtækur í eldhúsinu er okkar matargerð undir ísraelskum áhrifum. Mér finnst meðlætið skipta máli ekki síður en sjálfur aðalrétturinn þannig að við erum alltaf með þó nokkuð af vel krydduðum meðlætisréttum þegar við eldum veislumat. Pikkluðu sinnepsfræin, karmeliseraða hvítkálið og salatdressinguna má gera deginum áður til að spara tíma,“ segir hún.
Páskalambið
½ staukur Yfir holt og heiðar frá Kryddhúsinuólífuolía, salt og pipar
Kryddið lærið vel með Yfir holt og heiðar-kryddblöndunni, dreypið aðeins af olíu yfir allt saman og nuddið kryddinu vel á lærið. Gott að krydda lærið daginn áður og láta það hvíla í ísskáp þar til það er eldað. Hitið ofninn í 200°C. Setjið lærið í steikarpott eða ofnskúffu og saltið og piprið vel. Ofnsteikið í 45 mín við 200°C. Takið þá lærið út, gott að taka soðið frá fyrir sósuna. Pakkið lærinu inn í bökunarpappír og því næst álpappír yfir allt saman og lokið það vel af með álpappírnum. Setjið lærið aftur inn í ofninn í aðra 2½ klst.
½ laukur, fínsaxaður og u.þ.b. 50 g smjör sett í pott. Leyfið lauknum að mýkjast í smjörinu í dágóða stund. Bætið eins og 3 msk af hveiti út í pottinn og hrærið vel saman við.
Leysið upp einn sveppakraftstening í glasi af soðnu vatni og hellið út í pottinn ásamt soðinu af lærinu. Hellið rjóma út í og látið sósuna sjóða niður. Bragðbætið með eins og 2 msk. af bláberjasultu, aðeins af rauðvíni (eða öðru áfengi) og kryddið hana til með rósapipar og salti. Bætið við rjóma þar til ákjósanleg þykkt og áferð á sósunni næst.
Ofnbakað grasker með tahini og za’atar
1 grasker, kjarnhreinsað og skorið í grófa bita1 rauðlaukur, skorinn í báta eða skífur
ólífuolía
salt og pipar
u.þ.b. 3 msk. tahini (sesamsmjör)
safi úr hálfri sítrónu
vatn
hálfur hvítlauksgeiri, kraminn
30 g furuhnetur
1 msk. Za’atar frá Kryddhúsinu
lúkufylli af steinselju, grófskorin
Hitið ofninn í 220°C. Skerið graskerið til helminga, endilangt, og kjarnhreinsið. Skerið það í grófa bita. Skerið rauðlaukinn í báta/skífur og setjið í skál ásamt graskerinu. Dreypið aðeins af ólífuolíu yfir, saltið vel og piprið og nuddið vel á grænmetið. Setjið grænmetið í ofnskúffu og ofnbakið í 30-40 mín. Passið að laukurinn brenni ekki áður en graskerið er tilbúið. Takið úr ofninum og setjið til hliðar. Ristið furuhneturnar á pönnu með örlítilli ólífuolíu og örlitlu salti. Gott er að hafa háan hita og hræra í svo til stöðugt og passa þannig að ekki brenni við. Setjið furuhneturnar til hliðar á meðan þið gerið dressinguna. Hrærið saman tahini, sítrónusafa og vatni í skál ásamt hvítlauknum og saltið örlítið. Þetta á að vera á vera þannig á þykktina að hægt sé að hella þessu með góðu móti yfir grænmetið. Stráið za’atar og steinseljunni yfir grænmetið, hellið tahinidressingunni yfir allt saman og stráið furuhnetunum að síðustu yfir áður en borið fram.
Kryddaðar kartöflur í brenndu smjöri
Litlar kartöflur1 tsk. túrmerik
½ tsk. paprika
50 g smjör
tzatziki-kryddblanda frá Kryddhúsinu
salt og pipar
Sjóðið kartöflurnar með hýðinu. Ég vel litlar kartöflur og sýð þær í litlu vatni þannig að það rétt þeki þær og set túrmerik og papriku út í vatnið. Það gefur bragð og lit í kartöflurnar. Takið kartöflurnar úr vatninu áður en þær eru alveg fullsoðnar og leggið til hliðar. Bræðið smjörið á pönnu við háan hita. Leyfið því að brenna aðeins og setjið þá kartöflurnar út í og veltið þeim upp úr smjörinu. Að lokum kryddað með tzatziki, salti og pipar. Smart að merja þær aðeins á pönnunni með kartöflustappara ef maður vill.
Karmeliserað hvítkál með kummíni og einiberjum
100 g sykur50 g smjör
u.þ.b. 75 ml rjómi
½ hvítkálshöfuð, skorið í strimla
1 msk. einiber
1 tsk. kummín
salt og pipar
Sjóðið saman sykur og smjör í potti þar til það karmeliserast. Passið að hræra stöðugt í til að ekki brenni við. Lækkið aðeins hitann, hellið rjómanum út í og hrærið vel saman við. Setjið hvítkálsstrimla, einiber og kummín út í og látið sjóða í leginum í 10-15 mín. eða þar til hvítkálið er orðið soðið í gegn og lögurinn soðinn niður. Saltið og piprið eftir smekk. Lögurinn (ef einhver er) er sigtaður frá áður en borið fram.
Pikkluð sinnepsfræ
„Þessi uppskrift kemur frá vini okkar, matreiðslumeistaranum Jóhanni Inga Reynissyni. Þau eru frábær með lambinu og einnig er gaman að eiga þau inni í ísskáp sem meðlæti með hvers kyns mat og brauði,“ segir Ólöf.
250 ml borðedik150 g sykur
75 ml vatn
1 tsk. anísfræ
1 kardimomma (gott að merja hana aðeins í hýðinu og opna hana þannig)
1 tsk. rósmarín, þurrkað eða ferskt
1 tsk. timían, þurrkað eða ferskt
2 staukar sinnepsfræ (eða 130 g)
Allt nema sinnepsfræin sett í pott og soðið upp. Látið sjóða þar til sykurinn hefur leyst upp eða í bil 5-10 mín. Hellið heitum leginum yfir sinnepsfræin og látið kólna við stofuhita í lokuðu íláti. Geymist vel í lokuðu íláti á köldum stað. Sinnepsfræin eru síuð frá leginum þegar þau eru borin fram. Gott að gera þetta a.m.k. degi áður til að fræin mýkist og kryddbragðið njóti sín til fulls.
Spari-sítrus-salatdressing með basilíku og vanillu
„Við borðuðum hjá Jóhanni Inga Reynissyni matreiðslumeistara nýlega og ég kolféll fyrir þessari salatdressingu hans sem ég kalla sparidressingu þar sem hún inniheldur sykur en hún er algjörlega þess virði þegar maður vill gera vel við sig,“ segir hún.
100 g sykursafi úr 2 sítrónum
safi úr 1 appelsínu
safi úr 1 límónu
½ vanillustöng
1 tsk. basilíka þurrkuð
Bræðið sykurinn í potti með örlitlu vatni eða eins og 4 msk. Gott að standa yfir þessu og hræra í á meðan sykurinn er að leysast upp til að ekki brenni við. Þegar sykurinn er bráðnaður er ávaxtasafa og kryddi bætt út í. Gott að skafa kjarnann úr vanillustönginni út í pottinn og setja líka hýðið eða sjálfa stöngina út í. Leyfið þessu að sjóða svolítið, takið síðan af hellunni og látið kólna. Gott að sigta vökvann frá kryddinu þegar dressingin er orðin köld. Upprunalega uppskriftin segir að hella eigi bragðlausri olíu út í í smáum skömmtum og blanda vel saman með töfrasprota. Ég sleppi því en ég dreypi alltaf ólífuolíu á salatið ásamt aðeins af grófu salti og er svo með dressinguna á borðinu þannig að hver og einn geti hellt henni yfir salatið sitt. Þessi dressing geymist vel í lokuðu íláti á köldum stað.