þessi klassíski eftirréttur er mjög hátíðlegur og skemmtilega öðruvísi yfir hátíðarnar. Hér notum við Jólaglöggskryddblönduna í sírópið sem perurnar eru soðnar upp úr. Kanilísinn er dásamlegur og parast vel við perurnar. Perurnar má gera daginn áður en þeirra er neytt en geyma þær í lokuðu íláti í ísskáp og ísinn geymist vel í frysti.

Rauðvínslegnar perur í Jólaglöggssírópi:

1 líter rauðvín (ég nota ódýrt beljuvín)

2 kúfaðar msk Jólaglöggskryddblanda

500 gr hrásykur

6-8 litlar perur eða færri stærri og þá skera þær til helminga.

Setjið rauðvínið í stórann pott ásamt Jólaglöggskryddinu og hrásykrinum. Látið suðuna koma upp og sjóðið á meðan þið græjið perurnar eða í u.þ.b. 10-15 mín.

Það er fallegt að hafa litlar perur en ef þær fást ekki þá má nota þessar venjulegu en skera þær til helminga. Kjarnhreinsið perurnar og afhýðið þær. Setjið þær út í sjóðandi rauðvínið. Látið sjóða í 20-30 mín eða þar til perurnar eru orðnar mjúkar í gegn (passið að mauksjóða þær ekki). Veiðið þá perurnar upp úr pottinum og látið rauðvínssírópið sjóða niður þar til þið eruð sátt við þykktina/áferð sírópsins. Sigtið þá kryddið frá og hellið sírópinu í krukku. Þetta má gera daginn áður og geyma perurnar í lokuðu íláti inn í ísskáp. Gott er að taka perurnar úr ískápnum þó nokkru áður en þær eru bornar fram eða að taka svolítið síróp og hita í potti með perunum til að fá þær mýkri áður en þeirra er neytt. Hellið aðeins af sírópinu yfir perurnar og berið þær þannig fram með ísnum. Restina af sírópinu má nota til að bragðbæta sósur, út á hvers kyns eftirrétti eins og Ris a la mand, í heita drykki svo e-ð sé nefnt. Það geymist vel í lokuðu íláti á svölum stað.

Gott að kjarnhreynsa perurnar með t.d. flysjara. Ég nota litlar perur en ef það er erfitt að finna þær má að sjálfsögðu nota þessa venjulegu stærð af perum. Þá sker ég þær til helminga.
Perurnar eru soðnar í kryddleginum þar til þær eru soðnar í gegn en þó ekki mauksoðnar.
Eftir að perurnar eru teknar úr leginum er hann látinn sjóða niður í síróp. Fjarlægið kryddið og hellið í krukku þegar þið hafið fengið ákjósanlega þykkt á sírópinu. Sírópið geymist vel og það er dásamleg til að bragðbæta sósur, út á ís og eftirrétti eins og Ris a la Mand.

Kanil- og pekanhnetu ís:

500 gr pekanhnetur

3-4 msk Hlynsíróp

1 tsk Kanill malaður

Blandið hlynsírópinu og kanilnum saman í skál og veltið pekanhnetunum upp úr kanilsírópinu. Dreifið hnetunum á smjörpappír og ristið í 180C heitum ofni í u.þ.b. 10 mín. Þá er platan tekin út og hneturnar látnar kólna svo þær verði stökkar í ísnum.

2 bollar rjómi

1 bolli mjólk

2/3 bollar hrásykur

1-2 tsk vanilla

1 msk Kanill malaður

5 eggjarauður (hrærðar)

Aðferð:

Setjið rjómann, mjólkina og kanilinn í pott og hitið nær suðu. Þegar hliðarnar byrja að krauma takið þá pottinn af hellunni, lækkið strauminn á miðlungs hita og takið eins og 1/3 bolla af heitri rjómablöndunni og hellið í mjórri bunu út í skálina með hrærðu eggjarauðunum. Passið að hræra í allan tímann. Þetta er gert 2-3 sinnum til að tempra eggjarauðurnar. Hellið svo eggjarauðunum út í pottinn og setjið á helluna og látið krauma án þess að sjóði þar til hræran fer að þykkna. Mikilvægt að standa hjá pottinum og hræra annað slagið í annars er hætta á að eggjarauðurnar fari að skilja sig og þá er hræran ónýt. Þetta tekur u.þ.b. 10 mín. Þegar hræran helst aftan á skeið án þess að leka af þá er hún tilbúin. Bætið vanillunni út í og látið hræruna kólna áður en grófskornar pekanhneturnar eru bættar útí og ísinn settur í ílát með loki og inn í frysti. Mér finnst betra að setja blönduna í ísvél en þannig verður ísinn léttari og „rjómakenndari“ en það gengur vel að sleppa því að nota ísvél. Það er gott að leggja plastfilmu ofan á yfirborðið áður en lokið er sett á til að varna því að það myndist klaki. Takið ísinn út úr frysti eins og 10-15 mín áður en hann er borinn fram.

þegar rjómablandan er orðin það þykk að hún tollir nokkurn veginn aftan á skeið þá er hún tilbúin.
Ísinn fær mýkri áferð ef hann er settur í ísvél en það er ekki nauðsynlegt.
add_action( 'woocommerce_after_shop_loop_item', 'woocommerce_template_loop_add_to_cart', 20 );