Þessir marsipan-makkarónu kossar eru fengnir úr dönsku blaði og eru algjör draumur. Þeir eru kallaðir makkarónur en eru mun auðveldari að baka heldur en hefðbundnar makkarónur. Í uppskriftinni er líkjör en það má sleppa honum og setja rommdropa í staðinn eða vanillu fyrir þá sem það kjósa enda fer hvorutveggja vel með marsipaninu, appeslsínunni og kanilnum sem gera þessa kossa svo dásamlega.

Uppskrift (ég fæ 55 kossa úr uppskriftinni)

250 gr marsipan

250 gr sykur (gott að nota caster sykur eða að taka sykur og setja aðeins í matvinnsluvél)

100 gr eggjahvítur (u.þ.b. 3 eggjahvítur)

10 gr kakó (u.þ.b. 2 msk)

10 gr Kanill malaður (u.þ.b. 2 msk)

rifið híðið af 1/2 appelsínu

Aðferð:

Stillið ofninn á 180C. Setjið öll innihaldsefnin í skál og hrærið saman í hrærivél með K´inu. Deigið er frekar blautt og því auðvelt að setja það í sprautupoka og sprauta í doppur á bökunarpappírsklædda ofnplötu. Mér finnst gefa fallega áferð að taka skeið, bleita hana og nota bakið á skeiðinni til að slétta úr oddinum sem myndast þegar deiginu er sprautað úr sprautunni. Þannig fæst fallegra útlit á kökurnar.

Bakið við 180C í u.þ.b. 12-15 mín. Látið kökurnar kólna á plötunni/pappírnum áður en þær eru losaðar.

Kremið:

100 gr dökkt súkkulaði

125 ml rjómi

40 gr smjör (við stofuhita)

1 cl Rom eða annar líkjör eða rommdropar fyrir þá sem vilja ekki áfengið

Aðferð:

Brytjið súkkulaðið niður í skál. Hitið rjómann að suðumarki og hellið yfir súkkulaðið. Þegar súkkulaðið er bráðnað bætið þá smjörinu út í og bragðefninu og hrærið allt vel saman. Kælið inn í ísskáp í 30 mín eða meira. Þeytið kalda súkkulaðiblönduna í smá stund eða þar til hún er orðin létt og áferðin eins og á myndinni hér að ofan. Sprautið þá kreminu á kökurnar og setið þær saman tvær og tvær. Gott að geyma kökurnar í frysti og taka út 20 mín áður en bornar fram.